Um

Ragnar Viktor Karlsson

Höfundurinn

Sagan mín

Árið 2013 byrjaði ég að sjá sýnir og augu mín fóru að opnast fyrir sannleikanum í kringum mig. Ég byrjaði að skynja þjáningar fólks í brjósti mínu og fór í mikið sorgarferli og leið illa í langan tíma. Í kjölfarið fékk ég sterka köllun að hjálpa fólki og láta gott af mér leiða.

Ég byrjaði að leita leiða og fékk margar hugmyndir um ýmis hjálparstörf. Það var síðan árið 2015 að ég fór til Guðbjargar Sveinsdóttur, fræðslumiðils og andlegs kennara, en hún hafði starfað sem slíkur í tæp 30 ár. Ég sagði henni sýnum mínum og þeirri sterku köllun sem ég hefði fengið.

Fyrr en varði var ég orðinn nemandi hjá henni og mín andlega opnun og vakning til sjálfsmeðvitundar hófst. Ég fór til hennar í fasta tíma í um sjö ár og hjá henni öðlaðist ég visku sem gaf mér andlegan þroska og hækkandi meðvitund.  Ég öðlaðist dýpri skilning á sjálfum mér, fólkinu í kringum mig og á lífinu og tilverunni. Kvíði, ótti og áhyggjur hurfu úr lífi mínu og brjóst mitt fylltist af kærleika og ég byrjaði að upplifa mikinn innri styrk og jafnvægi. Guðbjörg leiðbeindi mér og kenndi og varðaði leið mína eftir hinum andlega vegi sem liggur til lífsins. Það varð mikil og jákvæð umbreyting á lífi mínu og ég upplifði mikla hamingju og gleði í hverju augnabliki lífs míns.

Ég vissi nú að lífsverkefni mitt væri andleg kennsla og að hjálpa öðrum en ég vissi lengi vel ekki með hvaða hætti sú kennsla og hjálp ætti að vera. Loks skildi ég og meðtók að verkefni mitt væri að skrifa andlegar bækur til að hjálpa fólki að öðlast andlegan þroska og hækkandi meðvitund. Að breyta þjáningu í vellíðan og að hjálpa fólki að vakna til meðvitundar um sjálft sig, hugsanir sínar og tilfinningar. Að öðlast dýpri skilning á sjálfu sér og öðrum og upplifa sanna hamingju, gleði og kærleika í lífinu.

Í bókunum miðla ég reynslu frá minni andlegu vakningu og opnun og einnig miðla ég úr viskubrunni sálarinnar.

Það er einlæg ósk mín að sem flestir geti nýtt sér bækurnar sér til framdráttar í lífinu og geti lifað í kærleika og hamingju í hverju augnabliki lífsins og kennt öðrum að gera slíkt hið sama.